Saturday, October 25, 2014

Hrekkjavökuföndur úr klósettpappírsrúllum



Þar sem Halloween og afmælisdagur Elsta Barns er sirkabát á sama tíma (hvað eru sjö dagar á milli vina?) þá vildi frökenin endilega halda afmælisþema með Hrekkjavöku ívafi.

Mamma hennar er auðvitað stórhrifin af hugmyndinni því að:

A)Hrekkjavaka er svo rosalega skemmtileg og 

B)Það er hægt að föndra og skreyta svooo mikið!

Fyrir mig, sem klæjar í puttana að byrja að setja seríur útí glugga í Septemer er smá blóðslettur og beinagrindur alveg sárabót svona þangað til.

Hérna er eitt föndrið sem við gerðum, þessi fínu skrímsli sem voru einu sinni klósettpappírsrúllur!




Hrikalega einfalt og skemmtilegt föndur sem allir ættu að geta klúðrað saman á nó tæm!

Það sem þarf:




Tómar klósettpappírsrúllur
Málning í skrímslalitum
pensill

Ekki var það nú flókið! Ég notaði Akríl málningu frá Sösterne Grene því ég átti það til og það svínvirkaði!

Fyrsta skref: rífa mestallan afgangspappír af hólkunum. Þetta er ekki erfitt, ég nuddaði þetta bara af með fingurgómunum, tók engan tíma og engin efni. Ég gerði sex stykki á sirka þremur mínútum.



Annað skref: Grunna alla hólkana með hvítu. Frekar krúsjal að fara allaveganna eina umferð með hvítum svo litirnir sjáist betur.



Búin að grunna alla hólkana.


Þriðja skref: byrja að mála! Ég mæli með að mála hólkana í tvemur pörtum, það er svo leiðinlegt að mála allan hólkinn bara til að hann límist við dagblöð/borð/hvar sem hann er geymdur á meðan hann þornar. Málningin er fljót að þorna svo að það passar að þegar maður er búinn með þann síðasta þá er sá fyrsti þornaður.


Aðeins farið að koma mynd á þetta. Ef þið fílið allt voða minímalískt ætti þetta bara að duga svona.
Ég er ekki minímalísk. Ég lét þetta ekki duga og bætti smáatriðum í þetta.

Draugur: augu, munnur og smá botn svo að það sé eins og hann "fljóti" í lausu lofti. Ég hafði hann frekar dapran því það er eitthvað sorglegt við afturgöngur en það er auðvitað hægt að hafa hann með alla heimsins andlitsdrætti!

Grasker: Mér finnst grasker ofboðslega vond á bragðið, mögulega vegna skorts á Hrekkjavöku í minni barnæsku. Munnsvipurinn á mínu voða vonda graskeri endurspeglar það en þau geta verið allskonar á svipinn, alveg eins og draugurinn!

Vampíra: Þessi hrikalega krúttlega vampíra var bara ekki alveg að gera sig fyrir mig...

..svo ég sneri henni við og gerði annað andlit á hnakkann á henni. Núna er hún eins og Vonda Lögga í Lego Myndinni. Hægt að gera þetta við alla hólkana nema leðurblökuna, mæli með því ef það á að hengja þetta upp en mínum verður bara stillt upp í hillu.

Skrímsli Frankensteins: Saumar eru krúsjal í þessu! Gulu augun eru optional og húðliturinn líka. 

Leðurblaka: Leðurblökuna ÞARF ekki að grunna með hvítu! Bara mála svart og smá rauð augu og vígtennur. Mér fannst þetta ekki segja "leðurblaka" nógu skýrt svo að ég ákvað að bæta við vængjum. Fyrst setti ég hana á pappa til að sjá hversu stóra ég vildi hafa þá.

Síðan krotaði ég nokkrar línur á blað og klippti út (þetta er seríjós pakki, ekkert fansí)

Það sést illa en ég hafði "flipana" á vængjunum aðeins lengri en þurfti til að líma á hólkinn svo ég hefði eitthvað að halda í á meðan ég málaði, Henda einni til tvemur umferðum af svartri málningu yfir oooog...

...VOILA! Líma vængina aftan á og þú ert komin með fyrsta flokks leðurblöku. Fáránlega krúttleg þegar hún hangir niður úr loftinu!

Múmía: Mér fannst múmían ekki alveg nógu góð hjá mér svo að ég klippti niður smá ræmur af eldhúspappír og límdi með fljótandi lími. Ég notaði Mod Podge afþví að ég átti það en það er hægt að nota allt fljótandi lím.

síðan rétt dýfði ég penslinum í brúna málningu og svo á bólakaf í vatn. Ég rétt kom við pappírinn til og hann saug í sig allt brúna vatnið úr penslinum, múmíur eru jú soldið gulnaðar af elli. Bara muna að mála fyrst svartan ferhyrning og tvö stingandi gul augu!

Og hér eru þau öll, skrímslin mín sæt og fín




Fáránlega einfalt og fljótlegt föndur sem kemur vel út og er ákaflega barnvænt.

Þar til næst:

Föndur Nína :)






No comments:

Post a Comment